Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 62/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 62/2024

Miðvikudaginn 10. apríl 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 2. febrúar 2024, kærði B, félagsráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. nóvember 2023 um að synja beiðni kæranda um endurupptöku á ákvörðun um upphafstíma greiðslna félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins, móttekinni 23. febrúar 2023, sótti kærandi um greiðslur á viðbótarstuðningi við aldraða frá 1. nóvember 2022. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 3. maí 2023, var umsókn kæranda samþykkt frá 1. nóvember 2022. Með tölvupósti 16. október 2023 fór umboðsmaður kæranda fram á að Tryggingastofnun ríkisins myndi endurupptaka ákvörðun stofnunarinnar frá 3. maí 2023 um upphafstíma greiðslna félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 2. nóvember 2023, var beiðni kæranda synjað á þeim forsendum að samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga nr. 74/2020 um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða væri ekki heimilt að greiða viðbótarstuðning lengra aftur í tímann frá því að umsókn var lögð fram en sem næmi þremur mánuðum.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 7. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 6. mars 2024, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. mars. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. nóvember 2023, um endurupptöku ákvörðunar um upphafstíma greiðslna félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða.

Kærandi hafi verið með 75% örorkumat og örorkulífeyrisgreiðslur fram að töku ellilífeyris hjá Tryggingastofnun í maí 2021. Kærandi sé að fá greiðslur miðað við 61,3% búsetuhlutfall vegna fyrri búsetu erlendis. Kærandi hafi sótt um félagslegan viðbótarstuðning með umsókn, dags. 23. febrúar 2023. Félagslegur viðbótarstuðningur hafi verið greiddur frá 1. nóvember 2022, þ.e. þrjá mánuði aftur í tímann. 

Í erindi til Tryggingastofnunar, dags. 16. október 2023, hafi verið farið fram á að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 3. maí 2023, um upphafstíma greiðslna félagslegs viðbótarstuðnings yrði endurskoðuð og viðbótarstuðningurinn yrði greiddur frá og með töku ellilífeyris eða frá 1. maí 2021. Því erindi hafi verið synjað með bréfi, dags. 2. nóvember 2023, á þeim forsendum að skýrt kæmi fram í 4. mgr. 9. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða nr. 74/2020 að ekki sé heimilt að greiða viðbótarstuðning lengra aftur í tímann frá því að umsókn hafi verið lögð fram en sem nemi þremur mánuðum. Engar undantekningar séu gerðar á þeirri reglu.

Kærandi hafi fyrst fengið vitneskju og upplýsingar um þann möguleika að sækja um félagslegan viðbótarstuðning í viðtali hjá umboðsmanni hennar í febrúar 2023. Eins og komi fram í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9790/2018 hvíli „ríkari leiðbeiningaskylda á Tryggingastofnun gagnvart umsækjendum og greiðsluþegum en almennt hvílir á stjórnvöldum samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Hér hef ég þá m.a. í huga að 1. mgr. 37. gr. vísar ekki einungis til aðila máls, þ.e. umsækjanda hvers máls sem er til meðferðar, heldur einnig til greiðsluþega sem ekki er víst að eigi í reynd mál til meðferðar hjá stofnuninni. Enn fremur bendir orðalag ákvæðisins um að stofnunin þurfi að kynna sér aðstæður viðkomandi til þess að gert sé ráð fyrir ríkari leiðbeiningarskyldu að eigin frumkvæði en verður leidd af ákvæði stjórnsýslulaganna.“

Kæranda hafi ekki verið leiðbeint um mögulegan rétt til félagslegs viðbótarstuðning við aldraða og að hún þyrfti að sækja um hann sérstaklega. Á „mínum síðum“ Tryggingastofnunar sé hvorki að finna bréf né gögn þar sem kærandi sé upplýst um að hún geti sótt um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða.

Í bréfi og tölvupósti Tryggingastofnunar, dags. 2. nóvember 2023, sé þökkuð ábending frá starfsmanni ÖBÍ og að stofnunin telji þarft að leiðbeina örorkulífeyrisþegum sem eigi takmörkuð lífeyrisréttindi vegna búsetu sinnar erlendis um greiðslur félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða við þau tímamót þegar örorkulífeyrisþegi nái ellilífeyrisaldri. Í bréfi stofnunarinnar komi fram að ákveðið hafi verið að innleiða það í verklag að senda þeim hópi bréf með upplýsingum um þær greiðslur. Að mati kæranda hafi Tryggingastofnun viðurkennt að leiðbeiningarskyldu við kæranda og aðra í sömu stöðu hafi ekki verið sinnt. Kærandi hafi því misst af því að sækja um félagslega viðbótarstuðning við upphaf ellilífeyrisgreiðslna hjá Tryggingastofnun vegna skorts á leiðbeiningum frá stofnuninni. Kæranda eigi ekki að bera hallann af því að stofnunin hafi ekki upplýst og leiðbeint henni um rétt til þessara greiðslna. Á sama tíma hafi verið ljóst að kærandi hafi verið í hópi þeirra sem eigi takmörkuð lífeyrisréttindi vegna búsetu sinnar erlendis og hafi Tryggingastofnun borið að leiðbeina og upplýsa kæranda um félagslegan viðbótarstuðning.

Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 2. nóvember 2023, sé vísað til þess að upplýsingar um félagslegan viðbótarstuðning hafi verið hægt að nálgast á heimasíðu stofnunarinnar allt frá innleiðingu þessara greiðslna. Áréttað sé að vísun í upplýsingar á heimasíðu, þ.e. að kærandi hefði getað fundið upplýsingar þar um félagslegan viðbótarstuðning, komi ekki í stað leiðbeiningarskyldu stjórnvalda.

Í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi:

„Stjórnvald skal veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess.“

Upplýsingagjöf geti ekki einskorðast við það sem finna megi á heimasíðu Tryggingastofnunar. Í því sambandi sé einnig vert að minna á að á stofnuninni hvíli ríkari leiðbeiningarskylda og þá sérstaklega gagnvart þeim sem ekki geti nálgast eða nýtt sér stafrænar upplýsingar.

Í ársskýrslu fyrir árið 2021 hafi umboðsmaður Alþingis bent á að á árinu 2003 hafi stjórnsýslulögum verið „breytt með það fyrir augum að skapa grundvöll fyrir rafræna stjórnsýslu til framtíðar. Á grundvelli jafnræðissjónarmiða var sú stefna mörkuð að rafræn stjórnsýsla ætti að vera valkostur fyrir borgarann en ekki skylda. Þá komu fram í lögunum ákveðnar kröfur um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda varðandi rafræna meðferð máls svo og reglur sem tryggja áttu tæknilegt jafnræði, ef svo má að orði komast.“

Kæranda hafi verið synjað um greiðslur lengra aftur í tímann en þrjá mánuði á þeim forsendum að í 4. mgr. 9. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða að ekki sé heimilt að greiða viðbótarstuðning lengra aftur í tímann frá því að umsókn hafi verið lögð fram en sem nemi þremur mánuðum. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9790/2018 hafi umboðsmaður komið inn á tveggja ára fyrningarreglu í lögum um almannatryggingar. Í álitinu segi að „umrædd tveggja ára fyrningarregla víki frá þeim fyrningarfrestum sem almennt gilda samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttar nr. 150/2007. Almennur fyrningarfrestur kröfuréttar er fjögur ár, sbr. 3. gr. laganna, og í 6. gr. eru sérstakar reglur m.a. um kröfur sem ákveðnar eru vegna eftirlauna, framfærslueyris, meðlags eða annarra greiðsla sem falla í gjalddaga með jöfnu millibili.“ 

Í álitinu hafi umboðsmaður Alþingis beint „þeim tilmælum til félags- og barnamálaráðherra, sem fer með málefni almannatrygginga, að gildandi lög yrðu endurskoðuð þannig að þeir sem teldu að skortur á leiðbeiningum af hálfu Tryggingastofnunar hefði leitt til þess að þeir yrðu af bótagreiðslum lengra aftur í tíman en tvö ár gætu fengið skorið úr slíkum ágreiningi hjá stjórnvöldum og leiðréttingu.“ 

Það sé mat kæranda að framangreint eigi við í málinu, enda hafi kæranda ekki verið leiðbeint um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða og hafi því farið á mis við þessar greiðslur á tímabilinu maí 2021 til og með október 2022.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 6. mars 2024, segi að í greinargerð Tryggingastofnunar sé lögð áhersla á að rekja leiðbeiningar sem kæranda hafi fengið hjá stofnuninni eftir að hún hafi sótt um félagslega viðbótarstuðning við aldraða og við endurnýjun félagslegs viðbótarstuðnings í nóvember 2023. Kærumálið varði ekki upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar eftir að kærandi hafi fengið upplýsingar annars staðar frá um að sækja um félagslegan viðbótarstuðning, heldur um upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar á þeim tíma er kærandi hafi fyrst átt rétt á félagslegum viðbótarstuðningi eða við 67 ára aldur.

Eins og komi fram í greinargerð Tryggingastofnunar hafi stofnunin ákveðið í kjölfar erindis frá umboðsmanni kæranda „að innleiða nýtt verklag og senda örorkulífeyrisþegum sem eiga takmörkuð lífeyrisréttindi hér á landi vegna búsetu sinna erlendis bréf með upplýsingum um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða við þau tímamót þegar þeir ná ellilífeyrisaldri.“ Kærandi tilheyri þessum hópi sem við upphaf töku ellilífeyris hjá Tryggingastofnunar hefði átt að fá bréf frá stofnuninni með upplýsingum um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Ástæða þess að nýtt verklag hafi verið innleitt hafi verið að upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu til þessa hóps hafi ekki verið fullnægt. Að mati kæranda vegi leiðbeiningar- og upplýsingaskylda Tryggingastofnunar þyngra en ákvæði um þriggja mánaða afturvirkar greiðslur.

Í greinargerð Tryggingastofnunar sé því haldið fram að upplýsingar á heimasíðu stofnunarinnar varðandi félagslegan viðbótarstuðning við aldraða hafi hingað til verið taldar fullnægjandi og í samræmi við upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu hjá opinberum stofnunum. Að mati hvers slík upplýsingagjöf sé talin fullnægjandi komi ekki fram í greinargerðinni, enda ekki vísað í neitt því til stuðnings. Varðandi leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar hafi umboðsmaður kæranda vísað til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9790/2018. Í álitinu komi skýrt fram að upplýsingar á heimasíðu stofnunarinnar uppfylli ekki þau ströngu skilyrði sem gildi um leiðbeingarskyldu stjórnvalda. Sérstaklega þegar einstaklingar séu í sýnilegri þörf fyrir leiðbeiningar og upplýsingar. Tryggingastofnun beri skylda til að gæta ávallt að sérstökum frumkvæðisskyldum sínum. 

Tryggingastofnun sé stjórnvald í skilningi stjórnsýsluréttar. Starfshættir og stjórnvaldsákvarðanir stofnunarinnar geti haft afdrifarík áhrif á rétt eða skyldu manna og því skipti máli að til þeirra sé vandað og að þeim aðila sem ákvörðun sé beint að sé gefinn kostur á að gæta réttar síns. Í leiðbeiningarskyldu stjórnvalda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga felist skylda fyrir stjórnvöld til þess að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Það hafi sannarlega ekki verið gert í þessu máli.

Varðandi þá ríku leiðbeiningarskyldu sem hvíli á Tryggingastofnun sé rétt að minna stofnunina á að brot stjórnvalda á leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga geti bakað hinu opinbera bótskyldu að uppfylltum bótaskilyrðum. Það eitt og sér renni frekari stoðum undir hversu rík skylda hvíli á stjórnvöldum að leiðbeina og upplýsa.

Jafnframt beri að hafa í huga að formkröfur stjórnsýslulaga feli í sér að lagðar séu sérstakar formkröfur á stjórnvöld. Stjórnvald skuli gæta þess að veita aðilum einstaklingsbundnar leiðbeiningar þegar aðili hafi sýnilega þörf fyrir þær. Upplýsingar á heimasíðu hafi ekki uppfyllt þær sérstöku formkröfur sem á stofnunina séu lagðar samkvæmt skýru ákvæði 7. gr. stjórnsýslulaga. Tryggingastofnun hafi borið að upplýsa kæranda sérstaklega og veita henni upplýsingar á annan og meiri máta.

Í lok greinargerðar Tryggingastofnunar segi að löggjafinn hafi sett skýr fyrirmæli um að ekki mætti greiða lengra afturvirkt en þrjá mánuði og því telji stofnuninni sér ekki vera heimilt að greiða lengra afturvirkt en þrjá mánuði. Þessu sé mótmælt í ljósi þess að stofnunin hafi ekki sinnt lagaskyldu sinni gagnvart kæranda. Kærandi eigi ekki undir neinum kringumstæðum að bera hallann af óvönduðum stjórnsýsluháttum stofnunarinnar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 2. nóvember 2023, þar sem greiðslur á félagslegum viðbótarstuðningi hafi verið ákvarðaðar frá 23. febrúar 2023 og þrjá mánuði afturvirkt frá dagsetningu umsóknar, eða frá 1. nóvember 2022. Ekki hafi verið fallist á frekari afturvirkni greiðslna á félagslegum viðbótarstuðningi hjá kæranda en bent hafi verið á að sækja þurfi um viðbótarstuðning að loknu hverju greiðslutímabili.

Viðbótarstuðningur taki til þeirra einstaklinga sem séu 67 ára eða eldri og hafi fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og sem dvelji varanlega á Íslandi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 74/2020 um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Þeir sem uppfylla skilyrði laga um félagslegan viðbótarstuðning geti fengið greiddan félagslegan viðbótarstuðning sér til framfærslu, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Í 4. mgr. 9. gr. laganna komi fram að ekki sé heimilt að greiða viðbótarstuðning lengra aftur í tímann frá því að umsókn hafi verið lögð fram en sem nemi þremur mánuðum. Jafnframt sé tekið fram að ekki séu greiddir vextir ef um greiðslur aftur í tímann er að ræða.

Kærandi hafi sótt um greiðslur á félagslegum viðbótarstuðningi með umsókn, dags. 23. febrúar 2023.

Þann 3. maí 2023 hafi Tryggingastofnun sent bréf til kæranda vegna afgreiðslu á félagslegum viðbótarstuðningi. Í bréfinu segi að heimilt sé að greiða þrjá mánuði afturvirkt og þess vegna hafi greiðslur verið ákvarðaðar frá 1. nóvember 2022 til 31. október 2023.

Í máli kærandi hafi ekki verið fallist á greiðslur á félagslegum viðbótarstuðningi lengra aftur í tímann en sem nemi þremur mánuðum frá því að umsókn um félagslegan viðbótarstuðning hafi borist Tryggingastofnun, sbr. ákvæði 4. mgr. 9. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning. Þar sem umsóknin hafi borist Tryggingastofnun 23. febrúar 2023 hafi ákvörðun um afturvirkni greiðslna verið ákveðin 3 mánuðir frá dagsetningu umsóknar, sbr. ákvæði 4. mgr. 9. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning, eða frá 1. nóvember 2022.

Beiðni um endurupptöku á ákvörðun um upphafstíma félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða hafi verið send á umboðsmann viðskiptavina hjá Tryggingastofnun þann 16. nóvember 2023. Að hálfu umboðsmanns kæranda hafi verið farið fram á það að félagslegur viðbótarstuðningur yrði greiddur frá þeim tíma sem kærandi hafi byrjað töku ellilífeyris eða frá 1. maí 2021. Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 2. nóvember 2023, komi fram að ekki sé heimilt að greiða viðbótarstuðning lengra aftur í tímann frá því að umsókn hafi verið lögð fram en sem nemi þremur mánuðum. Einnig komi fram í bréfinu að frá því að greiðslur félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða hafi verið innleiddar í kjölfar laga nr. 74/2020 hafi Tryggingastofnun haft til skoðunar hvernig upplýsingamiðlun og leiðbeiningum um þær greiðslur verði sem best háttað. Tryggingastofnun hafi hins vegar allt frá innleiðingu félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða verið með upplýsingar um þessar greiðslur á heimasíðu stofnunarinnar á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku, jafnframt sem hægt hafi verið að nálgast upplýsingar á www.island.is á íslensku og ensku. Í kjölfar erindis frá umboðsmanni kæranda hafi Tryggingastofnun ákveðið að innleiða það verklag að senda örorkulífeyrisþegum sem eigi takmörkuð lífeyrisréttindi hér á landi vegna búsetu sinnar erlendis bréf með uppslýsingum um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða við þau tímamót þegar þeir ná ellilífeyrisaldri.

Kærandi hafi 3. nóvember 2023 sótt að nýju um viðbótarstuðning fyrir aldraða. Samdægurs hafi Tryggingastofnun sent kæranda bréf þar sem vakin hafi verið athygli á því að staðfesta þurfi dvöl kæranda hér á landi til að eiga rétt á frekari greiðslum á félagslegum viðbótarstuðningi. Tryggingastofnun hafi síðan samþykkt  umsóknina um áframhaldandi greiðslu á félagslegum viðbótarstuðningi við aldraða, sbr. bréf, dags. 13. desember 2023. Í bréfinu komi fram að greiðslur til kæranda hafi verið samþykktar frá 1. nóvember 2023 til 31. október 2024 jafnframt sem vakin hafi verið athygli á því að sækja þurfi um viðbótarstuðning að nýju að loknu hverju greiðslustímabili.

Tryggingastofnun telji að hún hafi upplýst kæranda um þau lagaskilyrði sem uppfylla þurfi til að eiga rétt á viðbótarstuðningi og einnig um að það þurfi að sækja um að nýju að loknu hverju greiðslutímabili. Í 4. mgr. 9. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning komi fram að ekki sé heimilt að greiða viðbótarstuðning lengra aftur í tímann frá því að umsókn hafi verið lögð fram en sem nemi þremur mánuðum. Jafnframt sé tekið fram að ekki séu greiddir vextir ef um greiðslur aftur í tímann er að ræða.

Ágreiningur í máli þessu snúi að því að greiddur verði viðbótarstuðningur lengra aftur í tímann en sem nemi þrem mánuðum. Tryggingastofnun telji að umsókn kæranda hafi verið afgreidd á réttmætan hátt og telji ekki vera heimild í lögum til að greiða lengra afturvirkt en sem nemi þremur mánuðum frá því að umsókn um félagslegan viðbótarstuðning hafi borist stofnuninni. Löggjafinn hafi sett mjög skýr lagafyrirmæli þar um og hafi meðal annars tekið það skýrt fram í 9. gr. laganna um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða að umsækjandi skuli sækja um greiðslur þessar í eigin persónu hjá Tryggingastofnun og gildi hið sama um endurnýjun umsókna.

Tryggingastofnun telji sig ekki hafa lagaheimild til að greiða kæranda afturvirkar greiðslur lengra aftur í tímann en sem nemi þremur mánuðum frá því að umsókn um félagslegan viðbótarstuðning hafi borist stofnuninni og telji sig því hafa afgreitt mál kæranda á réttan hátt. Bent sé á að í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 2/2023 hafi verið tekið fram að engin heimild væri í lögum um viðbótarstuðning við aldraða að greiða viðbótarstuðning lengra aftur í tímann en sem nemi þremur mánuðum frá þeim tíma að umsókn hafi verið lögð fram.

Upplýsingar á heimasíðu Tryggingastofnunar varðandi félagslegan viðbótarstuðning við aldraða hafi hingað til verið talin fullnægjandi og í samræmi við upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu hjá opinberum stofnunum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. nóvember 2023, á beiðni um endurupptöku á ákvörðun stofnunarinnar um upphafstíma greiðslna félagslegs viðbótarstuðnings við aldrað sem var tekin með bréfi, dags. 3. maí 2023.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga er svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1.ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2.íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Eins og áður hefur komið fram lýtur endurupptökubeiðni kæranda að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. maí 2023 um að samþykkja beiðni kæranda upphafstími greiðslna félagsviðbótastuðnings við aldraða frá 1. nóvember 2022.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af gögnum málsins að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. maí 2023 um upphafstíma greiðslna félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Úrskurðarnefndin lítur til þess að ekki er heimilt samkvæmt lögum nr. 74/2020 um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða að greiða umræddar greiðslur lengra aftur í tímann en sem nemur þremur mánuðum frá því umsókn var lögð fram, eins gert var í upphaflegri ákvörðun. Að mati úrskurðarnefndar hafa því ekki verið leiddar líkur að því að upphafleg ákvörðun hafi verið röng og að henni verði breytt við endurskoðun.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurupptöku staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurupptöku á ákvörðun um upphafstíma greiðslna félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum