Hoppa yfir valmynd

Færri og öflugri stofnanir - Rammagrein 9

Eitt af forgangsmálum stjórnvalda eru breytingar á stofnanakerfinu en með færri og öflugri stofnunum mætti bæta nýtingu fjármuna umtalsvert. Ríkisendurskoðandi1 hefur m.a. lýst því sjónarmiði að smæð stofnana sé í flestum tilvikum hamlandi í rekstrar- og faglegu tilliti og því sé nauðsynlegt að efla stofnanakerfið svo að það hafi burði til að takast á við viðfangsefnin.

Stofnanir ríkisins eru í dag 161 talsins2 og hefur þeim fækkað um 5 á kjörtímabilinu. Í lok 10. áratugarins voru stofnanir 250 talsins en með samstilltu átaki var þeim fækkað hratt og fækkaði stofnunum um 37% til ársins 2021.3 Áhersla var lögð á tilfærslu verkefna í hlutafélög ásamt því að verkefni voru færð til sveitarstjórnarstigsins.

Með stafvæðingu og bættri hagnýtingu gagna myndast aukin tækifæri til að horfa á verkefnin út frá sameiginlegum viðfangsefnum í stað þess að hver stofnun sinni afmörkuðum verkefnum. Með þessu má sameina ýmsar stofnanir sem hafa sömu eða sambærileg verkefni í öflugar þekkingarstofnanir og bæta þannig þjónustu við samfélagið.

Ýmsar breytingar á stofnanakerfinu eru í farvatninu með fækkun niður í 154 stofnanir. Þarna vega stærst sameiningar á stofnunum umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytis úr 13 í 8 sem hefur það að markmiði að auka samþættingu verkefna og samvinnu á milli stofnana. Vinnan var unnin í góðu samstarfi með starfsfólki út frá faglegri greiningu á viðfangsefninu og á sameiningin að skila sér í kröftugri og faglega öflugri starfseiningum.

Á slíkum forsendum mætti gera greiningu um endurskipulagningu stofnanakerfisins með það að markmiði að mynda öflugar þekkingarstofnanir sem hafa burði til að takast á við þær áskoranir sem ríkisreksturinn stendur frammi fyrir.

1 Stofnanir ríkisins, fjöldi, stærð og stærðarhagkvæmni. 2021. Ríkisendurskoðun.
2 Stofnanir ríkisins að frátöldum stofnunum Alþingis og ráðuneytum.
3 Stofnanir ríkisins, fjöldi, stærð og stærðarhagkvæmni. 2021. Ríkisendurskoðun.

Til baka
Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum