Hoppa yfir valmynd

​20 Framhaldsskólastig

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð mennta- og barnamálaráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2022–2024.

Heildarútgjöld

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn fyrir framhaldsskóla er að fleiri einstaklingar verði virkir og skapandi þátt­takendur í samfélaginu, vel undirbúnir fyrir þátttöku á vinnumarkaði, tæknibreytingar og fræði­legt og/eða starfstengt framhaldsnám.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að veita framúrskarandi menntun um allt land með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur í umhverfi þar sem öll skipta máli og öll geta lært.

Fjármögnun

Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðs hækki um 588 m.kr. frá fjárlögum 2024–2029. Helstu breytingar til hækkunar felast í 600 m.kr. vegna framkvæmda við starfsmenntaskóla á tímabilinu 2025–2026 en einnig er til staðar  uppsöfnuð fjárheimild. Ráðherra mennta- og barnamála hefur sett fram tímasetta forgangsröðun um að byggja við starfsmenntaskóla. Fyrir liggur samkomulag um kostnaðarskiptingu milli ríkisins og viðkomandi sveitafélaga  að ráðast í stækkun Fjölbrautarskólans í Breiðholti, Menntaskólans á Ísafirði, Fjölbrautarskóla Suðurnesja ásamt Fjölbrautarskólans Norðurlands Vestra. Þá hækkar framlag til Vinnustaðanámssjóðs um 450 m.kr. á tímabilinu 2025-2027. Einnig er gert ráð fyrir 470 m.kr. auknu framlagi vegna fjölgunar nemenda í starfs- og verknámi og 400 m.kr. til eflingar framhaldsskólakerfinu.

Helstu breytingar til lækkunar á útgjaldaramma á tímabilinu felast í almennri aðhaldskröfu að fjárhæð 286 m.kr. og niðurfellingu á tímabundnum framlögum sem nema 142 m.kr. ­

Útgjaldarammi

Helstu áherslur 2025–2029

Nám í takt við þarfir samfélagsins

20.1 Framhaldsskólar

Verkefni

Ábyrgð á málaflokknum liggur hjá ríkinu, bæði er varðar rekstur og fagleg málefni skóla­stigsins. Löggjöf um málaflokkinn tekur til opinberra framhaldsskóla og annarra framhalds­skóla sem hlotið hafa viðurkenningu til kennslu á framhaldsskólastigi. Framhaldsskólarnir eru um 40 og bjóða ýmist upp á almennt eða sérhæft nám, þar af bjóða 30 upp á fjölbreytt heildstætt nám samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Saga skólanna og sérhæfing er ólík, þeir eru misjafnir að stærð og gerð og staðsettir víðs vegar um landið. Undir málaflokkinn falla einnig fagleg mál, s.s. starfsþróun kennara, námskrárgerð og innleiðing og eftirfylgni með aðalnám­skrá.

Menntastefna til 2030 styður við velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi þar sem lögð er áhersla á þýðingu menntunar fyrir samkeppnishæfni þjóða og lífsgæði einstaklinga og markast áherslur málaflokksins auk þess af sýn og markmiðum mennta­stefnunnar um menntun handa öllum, læsi og góða íslenskukunnáttu, stærðfræði og náttúrugreinar, list-, verk- og tæknimenntun, námsgögn og nýliðun kennara. Sjá umfjöllun nánar á bls. 354–357 í fjármálaáætlun 2023–2027.

Helstu áskoranir

Jarðhræringar á Reykjanesskaga sem hófust á síðasta ári hafa umtalsverð áhrif á íslenskt samfélag, þ.m.t. menntakerfið. Ráðuneytið hefur átt í góðu samstarfi við framhaldsskóla vegna þessa en börn og ungmenni úr Grindavík stunda nám við framhaldsskóla um allt land. Talsverð hreyfing hefur verið á búsetu Grindvíkinga sem kallar á viðvarandi kortlagningu og stuðning. Ráðuneytið hefur lagt að framhaldsskólum að veita nemendum bæði sveigjanleika og aukinn stuðning í námi. Áfram verður unnið að samhæfðari þjónustu fyrir viðkvæma nemendahópa og innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Framhaldsskólar þurfa, eins og önnur svið samfélagsins, að bregðast við áskorunum vegna hlýnunar jarðar og örra tæknibreytinga sem hafa áhrif á öllum sviðum samfélagsins. Þá þurfa skólar jafnframt að mæta fjölbreyttum námsþörfum einstaklinga og gera öllum kleift að ljúka námi. Mikilvægt er að nám á framhaldsskólastigi standist alþjóðlegan samanburð. Mennta­stefnan byggist á þeirri sýn að veitt skuli framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem öll geta lært og öll skipta máli. Framhaldsskólakerfið hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár. Börnum í viðkvæmri stöðu hefur fjölgað, stafræn þróun og aðrar tæknibreytingar eru örar og jafnréttismál skipa sífellt stærri sess, auk þess sem nemendahópurinn hefur orðið fjölbreyttari.

Efla þarf stuðning við framhaldsskólanemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn til að auka möguleika þessa hóps til að stunda nám við framhaldsskóla til að efla stöðu á vinnumarkaði eða fara í áframhaldandi nám. Tryggja þarf kennslu við hæfi í hvetjandi námsumhverfi, auka íslenskukennslu og fræðslu um íslenskt samfélag og veita við­eigandi stuðning. Aukinn fjöldi umsókna barna um alþjóðlega vernd kallar einnig á aukinn stuðning skólakerfisins, s.s. sálrænan stuðning, almenna móttöku og styrkingu kennslu í íslensku sem annars tungumáls (ÍSAT) (sjá einnig málefnasvið 29.7 Málefni innflytjenda og flóttamanna).

Þróa þarf virkniúrræði fyrir ungmenni sem eru bæði utan vinnumarkaðar og skóla (NEET) með það að markmiði að grípa þann hóp sem skráir sig ekki í framhaldsskóla eða hverfur frá námi. Samkvæmt könnun Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins frá 2021 eru 555 einstaklingar milli 16 og 18 ára hvorki í námi né vinnu, 4,4% að meðaltali. 70% hópsins hafa innlendan bakgrunn og er hlutfall þeirra 3,6% en 30% hópsins hafa erlendan bakgrunn og er hlutfall meðal þeirra 8,1%. Meðal þeirra sem eru 19–24 er hlutfallið mun hærra.

Ýmsar áskoranir eru fram undan í framhaldsskólakerfinu varðandi stafrænt umhverfi. Námskrárgrunnur og innritunargrunnar eru gamlir og þarfnast uppfærslu þar sem jafnframt verði hugað að nýjum lausnum í takt við tímann. Þá er brýnt að styðja við námsgagnagerð á framhaldsskólastigi en það er mikilvægur þáttur í að tryggja gæði náms og kennslu.

Brotthvarf nýnema minnkar nú aftur mikið milli ára, eftir hækkun tvö ár í röð á COVID-tímabilinu. Nú mælist nýnemabrotthvarf um 4,3% sem er lækkun um 1,4 prósentustig frá skóla­árinu á undan. Ein af helstu áskorunum skólasamfélagsins er að tryggja öllum nemendum við­eigandi stuðning í námi og stuðla að vellíðan þeirra innan skólans en verulegur kynjamunur er enn á brotthvarfi nýnema, drengjum í óhag. Brotthvarf þeirra mælist nú um 5,2% en stúlkna 3,4%. Jákvæða þróun er þó að merkja í þá átt að brotthvarf drengja minnkar enn meira en stúlkna, eða um 2,2 prósentustig milli skólaára á meðan brotthvarf stúlkna minnkaði um 0,6 prósentustig.

Í stjórnarsáttmála er lögð áhersla á að efla iðn- og verknám um allt land og fjölga útskrif­uðum úr starfs- og tækninámi. Nauðsynlegt er að vinna áfram markvisst að nýliðun kennara og auka stuðning við nýja kennara en einnig felst töluverð áskorun í að fjölga starfsmennta­kennurum, sem skortur er á, og hækkandi lífaldri kennara en margir starfandi kennarar eru að nálgast eftirlaunaaldur.

Tækifæri til umbóta

Unnið er að nýjum heildarlögum um skólaþjónustu en markmið frumvarpsins er m.a. að tryggja jafnræði í þjónustu við börn á öllum skólastigum óháð aldri, menningarlegum bak­grunni og búsetu. Skólaþjónustan á að beinast að því að efla skóla sem faglegar stofnanir, s.s. með kennslufræðilegri ráðgjöf, stuðningi við leiðtoga í skólastarfi og stuðningi við skólaþróun. Ný þjónustu- og þekkingarstofnun, Miðstöð mennta og skólaþjónustu sem starfar í þágu barna og ungmenna á sviði menntamála tók til starfa 1. apríl sl. Hún þjónustar leik-, grunn- og framhaldsskóla um land allt með áherslu á gæði menntunar og skólaþjónustu. Þessi nýja stofnun mun veita aukinn stuðning við framhaldsskóla til að takast á við þær áskoranir sem framhaldsskólastigið stendur frammi fyrir.

Fram undan er áframhaldandi vinna við að efla iðn- og verknám um allt land, fjölga útskrif­uðum úr starfs- og tækninámi og fjölga þeim sem velja starfsmenntanám strax að loknum grunnskóla. Þá er viðvarandi verkefni að draga úr kynjaslagsíðu sem finna má í flestum starfs­menntagreinum og brýnt er að auka við náms- og starfsfræðslu til nemenda í efri bekkjum grunn­skóla í þeim tilgangi. Liður í því er áframhaldandi þróun vefsins Næsta skref, naestaskref.is, sem er upplýsingavefur um nám og störf sem rekinn er af Miðstöð menntunar og skólaþjónustu­ og kostaður af mennta- og barnamálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og innviðaráðuneyti. Ráðherra mennta- og barnamála hefur sett fram tímasetta forgangsröðun um að byggja við starfsmenntaskóla. Samhliða er unnið að nýrri byggingu Tækniskólans í Hafnarfirði sem hýsa mun alla starfsemi skólans.

Fyrir framlagningu fjárlaga 2025 til Alþingis er gert ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið vinni að greiningu á breyttum náms- og þjónustuþörfum nemenda á framhaldsskólastigi. Stuðst verður við greininguna við gerð úthlutunarlíkans til málaflokks 20.10 Framhaldsskólar. Mun það taka mið af fjölda nemenda en einnig verður tekið tillit til kerfislægra þátta sem áhrif hafa s.s. tegund náms, uppruna og þjónustuþarfa nemenda. Jafnframt er gert ráð fyrir auknum stuðningi nýrrar stofnunar menntunar og skólaþjónustu við framhaldsskóla. Þannig verður hægt að nýta fjármagn betur og mæta auknum fjölbreytileika í skólakerfinu. Gert er ráð fyrir að við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2025 verði greiningu á fyrsta áfanga nýs reiknilíkans til málaflokks 20.10 Framhaldsskólar lokið og muni það ná sérstaklega til nemenda á verknámsbrautum, starfsbrautum, nemenda með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn og nemenda í fangelsum. Mikill skortur hefur verið á starfsmenntakennurum og gera má ráð fyrir töluverðri endur­nýjun vegna hækkandi lífaldurs.

Nemendur á framhaldsskólastigi eiga að njóta fræðslu um jafnréttismál og kynjafræði og kynheilbrigði. Unnið verður áfram að eflingu jafnréttis- og kynjafræðslu og ofbeldisforvörnum í skólum, m.a. með útgáfu fræðslumynda, kennsluefnis og miðlægrar viðbragðsáætlunar gegn einelti, kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni (EKKO) fyrir framhaldsskóla.

Áhættuþættir

Ef nást á það markmið menntastefnu að veitt skuli framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem öll geta lært og öll skipta máli þarf að bregðast við þeim áskorunum sem framhalds­skólastigið stendur frammi fyrir. Áhætta er fólgin í því að ná ekki að tryggja nemendum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn þjónustu og menntun við hæfi. Sama má segja um þann hóp ungmenna sem hvorki er í skóla né í vinnu (NEET). Þá er mikilvægt að efla iðn- og verknám um allt land og talsverð áhætta falin í því að ekki takist að manna stöður starfs­námskennara og að tryggja nægt húsnæði til að bregðast við fjölgun nemenda í starfs- og tækni­námi.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Hækka hlutfall nem­enda sem ljúka starfs- og tækninámi og jafna kynjadreifingu.

4.4

Hlutfall skráðra nemenda í starfsnámi, samanborið við nemendur í námi til stúdentsprófs:

a) alls,

b) karlar,

c) konur.

a) 5,3:10

b) 7,9:10

c) 3,2:10

(2022)

5,4:10

5,6:10

4.4

Hlutfall brautskráðra nemenda í starfsnámi, samanborið við nemendur í námi til stúdentsprófs:

a) alls,

b) karlar,

c) konur.

a) 7,4:10

b) 9,9:10

c) 5,8:10

(2022)

6,6:10

6,8:10

Fjölga nemendum sem ljúka námi úr framhaldsskóla.

4.4

Hlutfall nýnema sem ljúka námi innan fjögurra ára af bók- og starfsnámsbrautum:

a) alls,

b) karlar,

c) konur.

a) 62,6%

b) 53,5%

c) 72,1%

(2021)

64%

66%

4.4

Hlutfall nýnema sem hverfa brott úr námi innan fjögurra ára frá innritun:

a) alls,

b) karlar,

c) konur.

a) 20,5%

b) 25,4%

c) 15,5%
(2021)

19%

17%

4.4

Námstími á námsleiðum til stúdentsprófs. Hlutfall nema á stúdentsbraut sem útskrifast innan þriggja ára:

a) alls,

b) karlar,

c) konur.

a) 56,7%

b) 47,5%

c) 63,3%

(2023)

60%

62%

Auka gæði menntunar í framhaldsskólum.

4.3,

Hlutfall nýnema í framhalds­skólum sem hverfa brott úr námi fyrsta skólaárið:

a) alls,

b) karlar,

c) konur.

a) 4,33%
b) 5,19%

c) 3,44%

(2023)

4%

3,5%

4.3

Fjöldi virkra rafrænna ferilbóka í starfsnámi.

38

45

48

20.2 Tónlistarfræðsla

Verkefni

Um málaflokkinn gilda lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, og taka þau til tónlistarskóla sem reknir eru af sveitarfélögum og annarra sem njóta styrks sam­kvæmt lögunum. Mennta- og barnamálaráðuneytið fer með faglega umsjón og eftirlit með tón­listarfræðslu, s.s. yfirstjórn námskrár- og námsefnisgerðar. Þá skipar ráðuneytið samstarfs­nefnd tónlistarfræðslunnar til að fjalla í heild um starfsemi tónlistarskóla, samstarf skólanna og rekstraraðila þeirra sem og samstarf tónlistarskóla við grunnskóla og framhaldsskóla. Ríki og sveitarfélög hafa gert samkomulag um fjárhagslegan stuðning ríkisins við tónlistarnám á vegum sveitarfélaga á framhaldsstigi í hljóðfæraleik og mið- og framhaldsstigi í söng. Í tengslum við samkomulagið hefur verið settur á laggirnar vinnuhópur sem hefur það hlutverk að vinna að framgangi samningsins. Á grundvelli samkomulags þessa tryggja sveitarfélög að nemendur, sem uppfylla inntökuskilyrði tónlistarskóla og reglur um námsframvindu, geti stundað tónlistarnám á framhaldsstigi í hljóðfæraleik og á mið- og framhaldsstigi í söng án tillits til búsetu. Samkomulag þetta hefur ekki áhrif á rétt tónlistarskóla til að krefja nemendur um skólagjöld samkvæmt gildandi lögum.

Helstu áskoranir

Núgildandi námskrár í tónlist hafa ekki verið endurskoðaðar um langt skeið og er það baga­legt sökum ósamræmis sem gætir með tilliti til aðalnámskráa grunnskóla og framhaldsskóla og þá einkum sú áhersla á hæfnimiðað nám sem ekki er að finna í núgildandi námskrám tónlistar­skóla.

Miklar breytingar hafa orðið á öllu skólastarfi síðustu ár. Mikilvægt er aðalnámskrá tónlistarskóla og greinabundnar námskrár í tónlist endurspegli það.

Tækifæri til umbóta

Hafin er vinna á vegum ráðuneytisins ásamt hagsmunaaðilum við endurskoðun aðalnám­skrár tónlistarskóla sem áætlað er að ljúka á árinu 2025. Sem fyrsta skref í stefnumótun um málaflokkinn og stuðningi við áðurnefnda endurskoðun aðalnámskrár tónlistarskólanna var sett af stað úttekt á tónlistarfræðslu sem fellur undir lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985. Búist er við niðurstöðum á öðrum ársfjórðungi ársins 2024. Í fram­haldinu tekur við áframhaldandi stefnumótun og áætlanagerð í tengslum við aðrar listgreinar. Jafnframt verða lögin frá árinu 1985 rýnd til samræmis við núgildandi löggjöf um grunn- og framhaldsskóla.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Aukið aðgengi nemenda að tónlistarnámi á mið- og framhaldsstigi.

4.4

Fjöldi nemenda á framhaldsstigi og miðnámi í söng sem njóta stuðnings á grundvelli samkomulags.

605

665

730

Aukin gæði tónlistarnáms.

4.4

Útgáfa endurskoðaðrar aðalnámskrár tónlistarskóla.

Lokið

 

           

Ekki hafa verið sett markmið og mælikvarðar í fyrri fjármálaáætlunum og er því um nýmæli að ræða.

20.3 Vinnustaðanám og styrkir

Verkefni

Tilgangur löggjafar um vinnustaðanámssjóð er að auðvelda nemendum að ljúka tilskildu námi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla, koma til móts við kostnað fyrirtækja og stofn­ana af vinnustaðanámi og auðvelda fyrirtækjum og stofnunum að taka nemendur á náms- eða starfsþjálfunarsamning.

Helstu áskoranir og tækifæri til umbóta

Aðgengi að vinnustaðanámi er mikilvægur þáttur í menntun þeirra sem leggja stund á verk­legt nám. Það er áskorun að standa vörð um gæði vinnustaðanáms og tækifæri til að auka gegnsæi í fjárveitingum og skilvirkni í nýtingu fjármuna. Áfram er unnið að endurskoðun á umgjörð og úthlutunarreglum sjóðsins til að styðja betur við þróun vinnustaðanáms, m.a. samkvæmt þeim breytingum sem boðaðar voru með reglugerð um vinnustaðanám, nr. 180/2021. Sú vinna fer fram í stjórn vinnustaðanámssjóðs.

Eðli málaflokksins er með þeim hætti að markmið og aðgerðir í málaflokki 20.1 Fram­haldsskólar eru að hluta til leiðandi fyrir úthlutun námsstyrkja, s.s. það markmið að hækka hlutfall nemenda sem ljúka starfs- og tækninámi, Innleiðing rafrænna ferilbóka í vinnustaða­námi er langt á veg komin en markmið ferilbókar er að efla gæði vinnustaðanáms með því að mynda samskiptavettvang nemenda, vinnustaða, skóla og annarra sem koma að starfsnámi um skilgreinda hæfniþætti þess starfs sem nemandinn lærir til. Í árslok 2023 voru rafrænar feril­bækur fyrir 38 starfsgreinar komnar í notkun og stefnt er að því að á árinu 2029 séu samtals 48 ferilbækur innleiddar, þ.e. fyrir allar starfsgreinar sem menntað er til í framhaldsskólum.

Áhættuþættir

Helstu áhættuþættir varðandi fjölgun nemenda í starfs- og tækninámi er að ekki takist að fá atvinnulífið til að fjölga náms- og starfsþjálfunarplássum en afleiðing þess yrði sú að nem­endum tækist ekki að ljúka formlegu námi. Markmið breytinga á úthlutunarreglum vinnu­staðanámssjóðs sem og aukning framlaga til sjóðsins er að milda þessa áhættu en jafnframt er mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við atvinnulífið um að fjölga fyrirtækjum sem taka að sér nema með stuðningi við Nemastofuna. Þá gegnir Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, lykilhlutverki í því að fjölga nemendum í starfs- og tækninámi með því að hafa umsjón með rafrænni ferilbók og birtingaskrá fyrirtækja.

20.4 Jöfnun námskostnaðar

Verkefni

Undir málaflokkinn falla lög um námsstyrki, nr. 79/2003. Námsstyrkir eru veittir til jöfn­unar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungri fjárhagsbyrði eða efnaleysi torveldar þeim nám.

Helstu áskoranir og tækifæri til umbóta

Stjórnvöld leggja áherslu á jafnt aðgengi að námi óháð búsetu og öðrum aðstæðum. Með tilkomu fjar- og dreifnáms og fjölbreyttra námsaðferða er mikilvægt að skoða hvort og þá hvernig búseta veldur fjárhagslegum aðstöðumun. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um námsstyrki var kynnt í lok ársins 2023 en fyrirhuguð breyting á lögum mun gera nemendum sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða kleift að sækja um námsstyrki á grundvelli laganna. Fyrirhugað er að gera breytingar á hinu almenna skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 79/2003 um að umsækjendur um námsstyrk þurfi að vera íslenskir ríkisborgarar eða erlendir ríkisborgarar sem eiga rétt til námsstyrks samkvæmt samningi íslenska ríkisins við önnur ríki. Áformað er að víkka út þetta almenna skilyrði, svo það nái til þeirra umsækjenda sem eru börn og hlotið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og áður hefur verið fjallað um. Í framhaldi af þessum breyt­ingum á lögum er þörf endurskoðunar á því hvort þörf sé á að auka gegnsæi og skilvirkni í nýtingu fjárveitinga til málaflokksins. Eðli málaflokksins er með þeim hætti að markmið og aðgerðir í málaflokki 20.1 Framhaldsskólar eru að hluta til leiðandi fyrir úthlutun námsstyrkja.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum