Hoppa yfir valmynd

01. Alþingi og eftirlitsstofnanir þess

Forsætisráðuneytið

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð forseta Alþingis. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2022–2024.

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Meginverkefni Alþingis er lagasetning en þingið fer einnig með viðamikið eftirlits­hlutverk. Starfshættir Alþingis eru ákvarðaðir í stjórnarskrá og þingsköpum.

Alþingi fer með eftirlit gagnvart framkvæmdarvaldinu og á vegum þess starfa tvær sjálf­stæðar stofnanir, umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi. Umboðsmaður Alþingis hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en einnig geta borgarar leitað til embætt­isins til að fá álit á því hvort leyst hafi verið úr þeirra málum í samræmi við lög. Með þessu er réttaröryggi borgaranna styrkt og Alþingi fær innsýn í starfshætti stjórnvalda. Ríkisendur­skoðandi hefur eftirlit með fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja. Markmið embættis ríkisendurskoðanda miða að betri nýtingu ríkisfjármuna og bættri opinberri þjónustu.

Fjármögnun

Breyting á fjárheimildum til málefnasviðsins skýrist einkum af tímabundnu framlagi vegna alþingiskosninga sem að óbreyttu fara fram árið 2025 og svo aftur árið 2029.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Helstu áherslur 2025–2029

Stafræn vegferð

01.10 Alþingi

Verkefni

Undir þennan málaflokk fellur bæði hin eiginlega þingstarfsemi og starfsemi skrifstofu þingsins. Meginhlutverk Alþingis er lagasetning og eftirlit með störfum framkvæmdar­valds­ins. Hlutverk skrifstofu Alþingis er skv. 90. gr. laga um þingsköp Alþingis að styðja við starfsemi Alþingis svo að þingið, sem handhafi ríkisvalds, geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt stjórnarskrá og lögum. Verkefni skrifstofu Alþingis eru m.a. að vera forseta til aðstoðar og framfylgja ákvörðunum hans, að veita alþingismönnum, nefndum og þingflokkum faglega aðstoð og þjónustu, að hafa á hendi almennan rekstur þingsins og stjórnsýslu og varðveita og miðla upplýsingum um hlutverk og starfsemi Alþingis.

Auk sérfræðilegrar þjónustu við forystu þingsins, fastanefndir og þingmenn annast skrif­stofan aðra­ fjölþætta þjónustu sem nauðsynleg er fyrir rekstur þingsins og uppbyggingu og rekstur fasteigna á Alþingisreit. Þá miðlar skrifstofa Alþingis upplýsingum um starfsemi Alþingis til almennings, m.a. með rekstri vefs og útgáfu- og fræðslustarfsemi og rekstri Skóla­þings. Einnig hefur skrifstofan á hendi ýmis föst verkefni sem tengjast Alþingi, m.a. rekstur Jónshúss í Kaupmannahöfn, auk þess að hafa á hendi ýmis tímabundin verkefni í tilefni af sérstökum viðburðum. Þegar Alþingi tekur ákvörðun um skipun rannsóknarnefnda samkvæmt lögum nr. 68/2011 kemur það jafnframt í hlut skrifstofu þingsins að hafa á hendi umsýslu í tengslum við starfsemi rannsóknarnefndanna.

Helstu áskoranir

Helstu áskoranir skrifstofu Alþingis snúa að því að halda uppi ásættanlegu þjónustustigi á meðan gætt er fyllsta aðhalds í rekstri. Skipulagsbreytingar hafa minnkað yfirbyggingu og aukið samstarf þvert á einingar. Áhersla hefur verið lögð á að nýta og þróa tæknilausnir á mörgum sviðum.

Tækifæri til umbóta

Mikil áhersla er lögð á að þróa stafrænar lausnir á öllum sviðum í starfsemi Alþingis. Mikil tækifæri felast t.d. í snjallvæðingu þingskjala og lagasafns, sem þegar er hafin, Alþingi, Stjórnarráðinu, öðrum hagaðilum og almenningi öllum til gagns. Ljóst er þó að tækifærin verða ekki fullnýtt nema með markvissu átaki. Skrifstofan er að leggja drög að því og mun óska eftir nánara samstarfi við Stjórnarráðið í þessum efnum.

Einnig er hafin vinna við að bæta aðstöðu þingmanna í þingsal með endurnýjun á hús­búnaði og tæknilegum þáttum hans.

Þá eru verkferlar á skrifstofunni alltaf í markvissri endurskoðun í anda straum­línustjórnunar og starfsfólk vakandi fyrir því að nýta möguleika nýs skipulags skrifstofunnar.

Fræðslustarf Alþingis er í stöðugri þróun, einkum meðal ungs fólks, enda mikilvægt að efla lýðræðisvitund fólks og fræða almenning um þá stofnun sem er grundvöllur íslensks lýðræðisskipulags. Í undirbúningi er gerð fræðslu- og kynningarmyndbanda um störf þingsins til birtingar á vef og samfélagsmiðlum. Boðið er upp á fjölbreyttar fræðsluleiðir sem byggðar eru á hæfniviðmiðum aðalnámskrár fyrir öll skólastig. Aukin áhersla verður lögð á að auka aðgengi ungs fólks á landsbyggðinni að fræðslu.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða

2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Bæta gæði og öryggi upplýsingakerfa á Alþingi.

9

Endurnýjun þingmálakerfa, 4 kerfi

3 kerfi

4 kerfi

Lokið

Bæta réttaröryggi og gegnsæi í lagasetningu með stafrænni þróun þingskjala.

9, 16

Snjöll þingskjöl

Í undirbúningi

Verklok

Lokið

Styrkja starfsemi Skólaþings.*

4

Fjöldi heimsókna

2100

1000

2500

Skólaþing, þróa nýjar fræðsluleiðir.

4

Fleiri nemendur af landsbyggð­inni í Skólaþing

Í undirbúningi

500

600

* Fækkun 2025 skýrist af framkvæmdum við Skólaþing.

Þrjú ný markmið eru komin inn frá fyrra ári en eitt markmið er farið út þar sem það náðist á síðasta ári eins og að var stefnt.

01.20 Eftirlitsstofnanir Alþingis

Undir þennan málaflokk falla tvær eftirlitsstofnanir Alþingis, umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi. Báðar stofnanirnar heyra undir Alþingi en eru sjálfstæðar í störfum sínum. Þær sinna margháttuðu eftirliti með stjórnsýslu og fjárreiðum hins opinbera.

Umboðsmaður Alþingis

Verkefni

Umboðsmaður (UA) hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga í umboði Alþingis. Stærsti þáttur reglulegrar starfsemi umboðsmanns felst í því að taka við kvörtunum frá borg­urunum og láta uppi álit sitt um hvort athafnir stjórnvalda brjóti í bága við lög eða séu and­stæðar vönduðum stjórnsýsluháttum. Umboðsmaður getur þó einnig að eigin frumkvæði tekið mál eða starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til athugunar. Ef umboðsmaður verður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum skal hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn. Þá sinnir umboðsmaður OPCAT-eftirliti samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum o.fl. sem beinist að stofnunum og heimilum þar sem frelsissviptir einstaklingar dveljast. Að síðustu er umboðsmanni falið að gæta þess að stjórnsýslan fari fram í samræmi við siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Veigamikill þáttur í starfi skrifstofu umboðsmanns er einnig að svara fyrirspurnum og leið­beina borgurunum í samskiptum þeirra við stjórnvöld og um möguleika til að leggja fram kvartanir. Þá sinnir embættið að einhverju marki fræðslu gagnvart stjórnvöldum, alþjóðlegum samskiptum, m.a. vegna OPCAT, auk þess sem af hlutverki embættisins leiðir ýmsa upp­lýsingagjöf gagnvart Alþingi, einkum nefndum þess.

Helstu áskoranir

Í gildandi fjármálaáætlun var miðað við að á árinu 2024 yrðu kvartanir 600 í samræmi við fjölgun árin þar á undan. Kvartanir á árinu 2023 voru þó undir þessari áætlun, eða 548 talsins, sem er þó fjölgun frá árinu 2022 (528) en lítillega undir þeim fjölda sem barst árið 2022 (570). Fjölda afgreiddra mála með tilliti til innkominna mála fækkaði og var 489 á árinu. Hafa ber í huga að kvörtunarmál eru mjög misjöfn að umfangi.

Helsta áskorun embættisins mun sem fyrr felast í því að viðhalda og bæta málahraða við umfjöllun um kvartanir borgaranna án þess að slakað sé á faglegum kröfum. Samhliða þessu er brýnt að áfram sé leitað leiða til að skapa embættinu nægilegt svigrúm til annarra verkefna, s.s. frumkvæðismála og OPCAT-eftirlits. Í því sambandi ber að hafa í huga að frumkvæðis- og OPCAT-eftirlit umboðsmanns gegnir veigamiklu hlutverki við að tryggja réttindi ýmissa minnihlutahópa þar sem þessir einstaklingar kunna að hafa takmarkaðar forsendur til að beina formlegri kvörtun til embættisins.

Tækifæri til umbóta

Áfram verður leitað leiða til að létta á málsmeðferð kvartanamála með skipulags­breytingum en einnig er í þessu sambandi horft til áframhaldandi vinnu við rafræna móttöku kvartana og samskipti. Þótt svigrúm til frumkvæðismála verði áfram þröngt (með einn fastan starfsmann á frumkvæðissviði) hefur tekist að stíga ákveðin skref í átt að aukinni virkni og sýnileika embættisins að þessu leyti, bæði með því að ljúka eldri málum og með stofnun nýrra. Á árinu 2023 voru þannig hafin 18 frumkvæðismál og 20 lokið sem er aukning frá fyrra ári og umfram markmið. Áfram verður leitast við að nýta svigrúm á kvartanasviði til frekari styrkingar frumkvæðissviðs, m.a. með aukinni samþættingu.

Á árinu 2022 var OPCAT-eftirlit embættisins styrkt og starfa þar nú þrír starfsmenn. Þá var farið fram úr markmiði um fjölda eftirlitsheimsókna sem voru sjö talsins og fjórar skýrslur gefnar út. Stefnt er að því að halda m.a. áfram eftirliti með aðstæðum sjúklinga á lokuðum deildum hjúkrunarheimila sem er svið er varðar töluverðan fjölda einstaklinga. Hvort unnt verður að viðhalda núverandi starfsemi OPCAT-einingar embættisins (með þrjá starfs­menn) ræðst að verulegu leyti af því hvernig fjöldi kvartana mun þróast.

Rætt hefur verið um að embættið taki að sér á þessum grundvelli eftirlit með flutningi brottvísaðra manna samkvæmt lögum um útlendinga. Þar sem sú vinna er enn á hugmyndastigi er ekki gert ráð fyrir fjármögnun slíks verkefnis.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Að UA leysi úr kvört­unum innan hæfilegs tíma.

16.6

Innkomnar

548

600

620

16.6

Afgreiddar

489

600

620

16.6

Afgreiddar innan þriggja mánaða

90%

90%

90%

Að UA geti sinnt hæfi­legum fjölda frumkvæðis­athugana.

16

Nýjar frumkvæðisathuganir

18

15

20

16

Afgreidd

20

15

20

Að UA geti sinnt OPCAT-eftirliti.

16

Heimsóknir

7

6

6

Skýrslur

4

6

6

Að viðhaldið verði upp­lýsingagjöf um störf UA.

16.1

Fjöldi reifana, álita og bréfa

511

550

600

Ríkisendurskoðun

Verkefni

Ríkisendurskoðandi starfar á vegum Alþingis og er trúnaðarmaður þess samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga nr. 46/2016. Skrifstofa ríkisendur­skoðanda nefnist Ríkisendurskoðun. Hlutverk stofnunarinnar er að hafa eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins og að fjármunum sé ráðstafað á hagkvæman og réttmætan hátt og í sam­ræmi við ákvarðanir Alþingis. Stofnunin er sjálfstæð og engum háð í störfum sínum. Ríkis­endurskoðandi gerir grein fyrir niðurstöðum sínum í skýrslum til Alþingis sem birtar eru opin­berlega. Þar birtast álit á reikningsskilum ríkisins og tillögur að úrbótum, bættri stjórnsýslu, skýrari ábyrgð og betri nýtingu ríkisfjár.

Helstu afurðir Ríkisendurskoðunar eru úttektir í formi skýrslna til Alþingis. Úttektir eru einkum á stjórnsýslu eða fjárhagsmálefnum einstakra ríkisaðila eða fjárlagaliða. Endurskoðun ríkisreiknings með ítarlegri skýrslu er sömuleiðis eitt af stærstu verkefnum Ríkisendur­skoðunar. Við bætist síðan eftirlit með fjárreiðum sjóða, félagasamtaka og ákveðnum þáttum í fjármögnun stjórnmálastarfsemi.

Helstu áskoranir

Samhliða breytingum á skipulagi embættisins og starfsháttum hefur á undanförnum árum verið unnið markvisst að því að stuðla að bættum aðbúnaði og aukinni vellíðan starfsfólks og gera því þannig kleift að skila betri árangri í störfum sínum. Undanfarin fimm ár hefur embættið talist til fyrirmyndarstofnana í könnun Sameykis um stofnun ársins og stefnir að því að halda því áfram. Með átaki í jafnréttismálum hefur óútskýrðum launamun verið eytt.

Ríkisendurskoðun leggur áherslu á eftirlit með því hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í meðferð á opinberu fé, svo og hvort fjárframlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt. Hefur sú stefna verið mörkuð að fylgjast á komandi árum sérstaklega með stjórnsýslu og fjárhag stærri ríkisaðila. Þetta leiðir til þess að úttektir verða færri en þeim mun mikilvægari og árangursríkari fyrir opinber fjármál og stjórnsýslu.

Staða ríkisfjármála er traust en veigamiklar áskoranir vegna náttúruhamfara kunna á næstu misserum að vega þungt á móti þeim efnahagsbata sem orðið hefur eftir að Covid-heims­faraldri lauk. Fleiri þættir, s.s. breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar, munu valda þrýst­ingi á ríkisfjármálin og gefa verkefnum Ríkisendurskoðunar aukið vægi á komandi árum er ríkisreksturinn leitar aukinnar hagkvæmni og jafnvægis. Glögg og tímanleg upplýsingagjöf um stöðu og horfur ríkisfjármála mun því áfram hafa mikla þýðingu.

Tækifæri til umbóta

Verkefni á sviði fjárhagsendurskoðunar (að meðtöldum útvistuðum verkefnum) verða áfram meðal þýðingarmestu þátta í starfi Ríkisendurskoðunar. Þar er um að ræða fjárhags­endurskoðun hjá A-hluta stofnunum og fyrirtækjum og félögum í eigu ríkisins í B- og C-hluta ríkisreiknings.

Með skiptingu A-hluta ríkissjóðs í þrennt (A1, A2 og A3) og flutningi ýmissa aðila í A-hlutann, einkum fyrirtækja og sjóða sem áður heyrðu undir B- og C-hluta samkvæmt lögum um opinber fjármál, hefur umfang A-hlutans aukist verulega. Breytt skipting A-hlutans mun hafa áhrif á endurskoðunarstarf embættisins á komandi árum sem mun þá í vaxandi mæli beinast að þeim ríkisaðilum í A-hluta sem máli skipta fyrir ríkisreikning, ásamt því að varða samstæðureikningsskil fyrir ríkið í heild (A-, B- og C-hluta) í fyrsta sinn fyrir árið 2023.

Samkvæmt lögum nr. 123/2015 um opinber fjármál (LOF) átti innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila (IPSAS) að ljúka með gerð ríkisreiknings fyrir árið 2019. Það hefur ekki gengið eftir og hefur reikningsskilaráð ríkisins ítrekað heimilað frestun á innleiðingu staðla. Nú er stefnt að fullri innleiðingu fyrir árslok 2024 og leggur Ríkis­endurskoðun ríka áherslu á að því markmiði verði náð án frekari frestana. Að mati embættisins hefði þurft að standa betur að innleiðingunni og undirbúningi hennar.

Áhættuþættir

Tekin er þóknun fyrir endurskoðun stórra og smárra félaga og sjóða í eigu ríkisins sem falla utan A1-hlutans. Vægi slíkra rekstrartekna (sértekna) hefur aukist á undanförnum árum en þær námu um 18% tekna á árinu 2023. Ekki er talið heppilegt að verkefnaval embættisins ráðist um of af sértekjumöguleikum þess. Jafnframt gera kröfur um endurskoðun eininga tengdum almannahagsmunum það að verkum að Ríkisendurskoðun mun framvegis frekar útvista slíkum endurskoðunarverkefnum en framkvæma þau sjálf. Áfram er stefnt að útvistun stórra endurskoðunarverkefna á komandi misserum og því ljóst að tekjur embættisins munu í vaxandi mæli þurfa að ráðast af framlögum á fjárlögum frekar en sértekjum.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Skýrari ábyrgð í opinberri þjónustu.

16.6

Hlutfall ábendinga sem teknar eru til greina

>80%

>80%

>85%

Betri nýting ríkisfjármuna.

16.6

Hlutfall ábendinga sem teknar eru til greina

>80%

>80%

>85%

Bætt stjórnsýsla.

16.6

Hlutfall ábendinga sem teknar eru til greina

>80%

>80%

>85%

Staðfesta áreiðanleika ríkisreiknings.

16.6

Hlutfall endurskoðunar­aðgerða v/ríkisreiknings sem lokið er við

100%

100%

100%

Markmiðið um að staðfesta áreiðanleika ríkisreiknings er nýtt og kemur í stað markmiðs um að efla eftirlit með tekjuöflun ríkisins, sem hefur verið samþættað endurskoðun ríkisreiknings. Nýja markmiðið lýsir betur starfsemi og áherslum við fjárhagsendurskoðun, auk þess að búa yfir vel skilgreindum mælikvörðum í endurskoðunarkerfi Ríkisendurskoðunar til að fylgjast með framgangi verkefnisins og árangri.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum