Hoppa yfir valmynd

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð heilbrigðisráðherra, forsætisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2022–2024.

Heildarútgjöld

 

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Málaflokkar málefnasviðsins eru mjög ólíkir og því er umfjöllun þessa kafla skipt niður á mála­flokka.

Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit ásamt stjórnsýslu heilbrigðismála. Framtíðarsýn mála­flokka um lýðheilsu, forvarnir og eftirlit (32.1) og stjórnsýslu heil­brigðis­mála (32.3) er sam­eiginleg öllum málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins; að íslensk heilbrigðisþjónusta sé á heims­­mæli­kvarða og að lýðheilsustarf með áherslu á heilsu­eflingu og forvarnir sé hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar. Árangur heilbrigðis­þjónustunnar sé met­inn með því að mæla gæði þjónustunnar, öryggi hennar, hversu aðgengileg hún er og hvað hún kostar.

Jafnréttis- og mannréttindamál. Framtíðarsýn málaflokks jafnréttis- og mann­réttinda­­mála (32.2) er að vera í fremstu röð og að hafa sjónarhorn jafnréttis að leiðarljósi þegar opin­berar ákvarðanir eru teknar. Ísland vill vera í fremstu röð þegar kemur að jafnrétti og mann­réttindum. Meginmarkmið málaflokks jafnréttis- og mannréttindamála er að allar mann­eskjur eigi jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína, óháð kyni, kyn­þætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund eða kyntján­ingu.

Stjórnsýsla félagsmála. Framtíðarsýn málaflokks um stjórnsýslu félagsmála (32.4) er vel­ferð fyrir alla þar sem þjónustan er framúrskarandi, áherslur ráðherra komast í framkvæmd og öll vinna ráðuneytisins er fagleg og skilvirk. Meginmarkmið stjórnsýslu félagsmála er að stuðla að öflugu starfi á sviði félagsmála.

Fjármögnun

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar. Ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á fjárheimildum málefnasviðsins fyrir utan niðurfellingu tímabundinna fjárheimilda og vegna almennra aðhaldsaðgerða.

Útgjaldarammi

 

Helstu áherslur 2025–2029

Efling lýðheilsu, forvarna og eftirlits

 

Jafnrétti og mannréttindi

 

32.1 Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit

Verkefni

Heilbrigðisráðuneytið fer með stjórn málaflokksins. Undir málaflokkinn falla embætti land­­­­læknis, Lyfjastofnun, Geislavarnir ríkisins, lýðheilsusjóður og verkefni er varða viðbúnað vegna farsótta.

Helstu lög sem falla undir málaflokkinn eru lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, lyfjalög, nr. 100/2020, lög um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, lög um dýralyf, nr. 14/2022, lög um lækningatæki, nr. 132/2020, og lög um geisla­varnir, nr. 44/2002. Í gildi er lýðheilsustefna til ársins 2030, lýðheilsustefna frá 2016 með sér­­­staka áherslu á börn og ungmenni að 18 ára aldri, heilbrigðisstefna til 2030, geðheil­brigðis­stefna til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi 2022, og stefna um stafræna heil­brigðis­þjón­­­­ustu. Undir lýðheilsu­stefnu falla ýmsar stefnu­mótandi áætlanir, s.s. krabba­meins­áætlun og ­­heilsu­efling aldraðra.

Helstu verkefni málaflokksins eru á sviði lýðheilsu í heilbrigðisþjónustu þar sem megin­áhersla er á heilsueflingu og forvarnir, auk þess sem verkefni málaflokksins eru geislavarnir, sóttvarnir, ­viðbúnaður við heilsuvá, eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsfólki og ­að tryggja greitt aðgengi að lyfjum og lækningatækjum. ­­­­

Helstu áskoranir

Ein stærsta áskorun sem fyrirséð er á samsetningu samfélagsins næstu árin er breytt aldurs­samsetning þjóðarinnar og fjölgun í hópi aldraðra. Mikilvægt er að mæta þörfum sam­félagsins og vinna markvisst að því að heilsa og velferð fólks sé eins góð og kostur er út ævi­skeiðið.

Heilbrigði og velferð snýr ekki aðeins að öflugri heilbrigðisþjónustu heldur því að auka virkni og þátttöku fólks og gera öllum betur kleift að huga að eigin heilsu með því að nýta alla þá þekkingu og öll þau úrræði sem eru til staðar í samfélaginu, innan sem utan heilbrigðis­þjónustunnar. Það verður því áskorun að fylgja eftir og innleiða Lýðheilsustefnu til ársins 2030. Brýnt er að vinna skipulega að því að auka heilsufarslegan jöfnuð í heilsu þar sem enginn er skil­inn eftir.

Auka þarf sérstaklega stuðning við vísindarannsóknir á heilbrigðisvísindasviði. Fá verkefni á sviði heilbrigðisvísinda fá úthlutun innan núverandi sjóðakerfa.

Sýklalyfjaónæmi er ein helsta ógn sem steðjar að lýðheilsu, matvælaöryggi og framþróun í heiminum í dag og er ómarkviss sýklalyfjanotkun einn stærsti áhrifaþátturinn. Starfshópur hefur lokið heildstæðri aðgerðaáætlun gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á Íslandi.­

Innleiðing krabbameinsáætlunar til 2030 er viðamikið verkefni og tekur til margra ólíkra þátta. Á vettvangi forvarna og heilsueflingar miðar áætlunin að því að fækka nýgrein­ingum og draga úr dánartíðni vegna krabbameina sem felst í upplýsingagjöf til almennings um áhættu­­­­­­­­­­­­þætti krabbameina, innleiðingu á lýðgrundaðri skimun samkvæmt skilgreindum gæða­stöðlum og góðri þátttöku landans í skimun. Í byrjun árs 2024 skipaði ráðherra samráðshóp um aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum til fimm ára, og er hópnum ætlað að byggja á krabba­meins­áætluninni frá 2016, endurmeta tillögur úr þeirri áætlun og leggja til nýjar aðgerðir eins og samráðshópurinn telur mikilvægast.

Stríð í Evrópu kallar á aukinn viðbúnað við heilsuvá, s.s. af völdum eiturefna, geisla­virkra efna og annarra óvæntra atburða sem valda auknu álagi á stofnanir ríkisins.

 Áskoranir er varða mönnun heilbrigðisþjónustunnar eru viðvarandi. Landsráði um mönnun og menntun er ætlað að vera ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana er varða styrk­ingu mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu, auk þess að vera samráðsvettvangur. Vax­andi áhersla er á sjónarmið velsældar og er þar horft til þess að aukin hagsæld og lífs­gæði hafi jákvæð áhrif á heilsufar sem komi öllu samfélaginu til góða. Í alþjóðasamstarfi hefur m.a. verið horft til áhrifaríkra aðferða í stefnumótun á Íslandi í þeim efnum. Velsældar­vísum er ætlað að gefa heildarmynd af hagsæld og lífsgæðum landsmanna yfir tíma. Heilsa er á meðal þeirra þátta sem fólk metur mikilvægasta fyrir lífsgæði. Heilsa er mikilvæg í sjálfri sér en hefur einnig áhrif á aðra mikilvæga þætti, eins og getu til að starfa á vinnumarkaði, afla tekna, afla sér menntunar og taka fullan þátt í samfélaginu að öðru leyti. Velsældarvísar sem fjalla um heilsu eru fjórir en þeir mæla lífslíkur, lífslíkur við góða heilsu, þá sem neita sér um læknis­þjónustu og eigið mat á andlegri heilsu.

Þeir vísar sem æskilegt er að horfa til hvað varðar kynja- og jafnréttissjónarmið eru lífslíkur við góða heilsu. Í skýrslu forsætisráðuneytisins frá 2019 um hagsæld og lífs um hagsæld og lífsgæði kemur fram að þó að konur geti vænst þess að lifa lengur en karlar á Íslandi geta karlar vænst fleiri ára við góða heilsu. Fjöldi ára við góða heilsu er engu að síður með hærra móti fyrir bæði kyn í samanburði við önnur Evrópulönd.

Tækifæri til umbóta

Lýðheilsustarf byggist á þverfaglegu samstarfi í samfélaginu og felur í sér að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður þjóðarinnar. Alþingi samþykkti í júní 2021 lýðheilsustefnu heilbrigðisráðherra til ársins 2030. Þar er lögð áhersla á heilsueflingu og forvarnir sem hluta af allri heilbriðgðisþjónustu, einkum heilsugæslunnar, og mikilvægi þess að efla samvinnu ólíkra aðila í samfélaginu öllu að lýðheilsumálum. Í ráðuneytinu er einnig útgefin geðheil­brigðis­­stefna, með tilsvarandi aðgerðaáætlun, sem leggur línur varðandi forvarnastarf og efl­ingu á geðheilbrigði þjóðarinnar. Þá hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að endurmeta skuli stefnu­­­mörkun í áfengis- og vímuvörnum.

Heilbrigði þjóðar snýst ekki einungis um öfluga heilbrigðisþjónustu heldur að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu og vel­líðan með því að nýta þekkingu og úrræði sem til staðar eru í samfélaginu, bæði innan og utan heil­brigðis­þjónustunnar, s.s. í skólum og innan félags­­­­þjónustu og íþróttahreyfinga.

Mikilvægt er að styrkja áfram verkefni heilsueflandi skóla og heilsueflandi samfélags með því að styðja við íþróttir, æskulýðsstarf, heilsueflingu aldraðra og heilsueflingu á vinnu­stöðum. Þar nýtast svæðis­bundnir lýðheilsuvísar til hvatningar, eftirfylgni og eftirlits. 

Horfa þarf á heilbrigði þjóðarinnar í víðu samhengi. Velsældarvísar íslenskra stjórnvalda eru skilgreindur mælikvarði um hagsæld og lífsgæði í landinu og þar með talið líðan fólks. Geðheilbrigði er ein af velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar. Lýðheilsuvakt embættis land­­­­­­­læknis vaktar helstu áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðanar. Markmiðið er að fylgjast með heilsu­hegðun og líðan Íslendinga og þróun helstu áhrifaþátta heilbrigðis og hagnýta þær upp­lýsingar og gögn í aðgerðaáætlunum til eflingar lýðheilsu.

Áhersla er lögð á að styrkja heilsugæsluna sem leiðandi þátttakanda í heilsueflingu og aðgerða­­­­­­­áætlun um lýðheilsu í samvinnu við aðra hagaðila, s.s. sveitarfélög.

Heilsueflandi samfélag (HSAM) nefnist verkefni, sem embætti landlæknis leiðir í sam­starfi við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila, þar sem heilsa og vellíðan allra íbúa er höfð í fyrir­rúmi. Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.

Unnið er að undirbúningi á skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi ásamt uppbygg­ingu á nýrri og endurbættri skimanaskrá hjá embætti landlæknis. Sérstök áhersla verður lögð á að efla geðheilbrigðisþjónustu í forvarnaskyni.

Lögð verður áhersla á að samræma gagnasöfn og styrkja umgjörð þeirra. Stuðlað verður að þróun og innleiðingu stafrænna lausna í heilbrigðisþjónustu samhliða því að vísindi og ný­­­sköpun verða efld. Tæknin verður nýtt til að auka aðgengi, gæði, skilvirkni og hagkvæmni heilbrigðisþjónustu. Einnig verður tæknin nýtt til að stuðla að skilvirkari gagnaöflun sem nýtist til ákvarðanatöku. Fjarheilbrigðisþjónusta verður sérstaklega efld. Heilbrigðisráðherra skipaði stýrihóop um stafræna framþróun sem hefur það hlutverk að að fylgja eftir og innleiða stafræna stefnu ráðuneytisins og vinna aðgerðaáætlun til útfærslu á henni. Meðal áherslna hópsins er samræming sjúkraskrárkerfa og áframhaldandi innleiðing fjarheilbrigðisþjónustu. Hópurinn hefur einnig til skoðunar framtíð vefsins Heilsuveru, hvernig eigi að koma upp miðlægu gagnasafni ópersónugreinanlegra upplýsinga til að styðja við ákvarðanatöku og stefnumótun í málaflokknum, hvernig fjárfesta eigi í tækni og hugbúnaði og með hvaða hætti sé hægt að samþætta grunna og notendaviðmót mismunandi stofnana og fyrirtækja á heil­brigðissviði.

Áhættuþættir

Heilbrigði er afurð af flóknu samspili einstaklinga og þeirra nánasta umhverfi og margir þættir hafa áhrif á heilsu manna og framvindu sjúkdóma. Áhættuþættir sjúkdóma sem tengjast lífs­stíl, lifnaðarháttum og umhverfi eru eitt helsta viðfangsefni sam­fél­ags­­ins á sviði lýð­heilsu. Þessir þættir eru oft samverkandi og tengdir sam­félags­­­legum þáttum og aðstæðum. Lýðheilsa snertir, auk heilbrigðismála, m.a. félagsmál, umhverfismál og efna­hags­­mál. Lýð­heilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir þarf því að byggja á þverfaglegu samstarfi í sam­félaginu. Væntingar um áhrif og árangur af þverfaglegu samstarfi á gæði og sam­fellu í þjón­ustu eru miklar. Hins vegar eru margvíslegar áskoranir og hindranir sem þarf að yfirvinna, s.s. ólík fag­svið með ólíkt verklag og vinnutilhögun, ólík upplýsinga­kerfi sem eru í notkun o.fl.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Efling heilsu og heilbrigðra lifnaðarhátta.

3.4,

3.5,

3.7,

3.A ,

Hlutfall landsmanna 18 ára og eldri sem nota nikótínpúða daglega.

Karlar 16,3%

Konur 6,8%

<8%

<5%

3.4, 3.5, 3.7, 3.A,

Þátttaka í skimun fyrir brjóstakrabbameini (B) og leghálskrabbameini (L).

B 52%*

L 62%*

B>75%

L>75%

B>75%

L>75%

3.4, 3.5, 3.7, 3.A

Hlutfall landsmanna sem búa í heilsueflandi samfélagi/sveitarfélagi.

96,2%

>97%

>98%

Aukið öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna.

3.8

Fjöldi heilbrigðisstofnana sem hefur innleitt Datix-atvikaskráningu.

0

10

14

Aukin gæði og efling rafrænnar heilbrigðis­þjónustu.

3.4, 3.7, 3.8

Hlutfall landsmanna 16 ára og eldri sem notar Heilsuveru í samskiptum við heilbrigðis­þjónustuna.

79,3%

>80%

>80%

3.4, 3.7, 3.8

Hlutfall karla af notendum sem nota Heilsuveru í samskiptum við heilbrigðisþjónustu.

45,8%

50%

50%

3.4, 3.7, 3.8

Traust almennings til heilbrigðisþjónustu.

71%

>70%

>70%

*Tölur frá 2022 (tölur fyrir 2023 koma í mars/apríl 2024) - Þátttaka í skimun fyrir brjósta­krabbameini er reiknuð sem fjöldi þeirra sem mæta í skimun yfir tveggja ára tímabil (árið sem gert er upp og árið þar á undan) sem hlutfall af heildarfjölda þeirra kvenna sem eru á skimunaraldri. Miðað er við tvö ár vegna þess að konum er ráðlagt að mæta á tveggja2ja ára fresti í skimun. Þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini er reiknuð á sama hátt nema þar er miðað við 3,5 ár aftur í tímann þar sem konum hefur verið ráðlagt að mæta á þriggja3ja ára fresti í skimun. Þessar reiknireglur eru sambærilegar í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við til þess að hægt sé að bera þátttökutölur saman milli landa.

Hlutfall karla 18 ára og eldri sem nota nikótínpúða daglega hefur aukist úr 15% í 16,3% á milli ára og hlutfalla kvenna úr 5% í 6,8%. Heilbrigðisyfirvöld leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir til að minnka notkun á nikóotíni og tóbaki, sérstaklega á meðal ungs fólks. Hlutfall landsmanna sem býr í heilsueflandi samfélagi aukist úr 94,5% í 96,2% á milli ára. Hlutfall landsmanna 16 ára og eldri sem notuðu Heilsuveru í samskiptum við heilbrigðisþjónustuna árið 2023 var 79,3% og hefur því lækkað lítillega frá fyrra ári sem var 88,7%. Þetta kemur ekki á óvart þar sem notkun Heilsuveru var meiri í heimsfar­aldri COVID-19 og hefur aðeins dregist saman árið 2023. Viðmiði fyrir 2025 og 2029 er því breytt í 80%. Innleiðing á Datix er enn ekki hafin. Áætlað er að innleiðing hefjist á árinu 2024.

 

32.2 jafnréttismál

Verkefni

Forsætisráðuneytið fer með yfirstjórn málaflokksins og hefur samráð við önnur ráðuneyti um verkefni á sviði jafnréttis- og mannréttindamála. Undir málaflokkinn falla aðgerðir hins opin­bera á sviði kynjajafnréttis og jafnréttis í víðtækri merkingu. Kynjajafnrétti er for­gangs­mál þar sem jafnréttismál verða ávallt í forgrunni ákvarðanatöku. Mannréttindamál heyra nú undir forsætisráðuneytið. Þau lög sem nú falla undir jafnréttismál eru lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, lög um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020, lög nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, og lög nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnu­­markaði (mismununarlöggjöfin). Þá falla lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, undir stjórnarmálefnið jafnréttismál ásamt málefnum hinsegin fólks.

Forsætisráðuneytið ber ábyrgð á starfsemi Jafnréttissjóðs Íslands en hefur falið Rann­sókna­miðstöð Íslands (Rannís) umsjón og umsýslu sjóðsins.

Jafnréttisstofa heyrir undir yfirstjórn forsætisráðherra og er sú stofnun sem fellur undir málaflokkinn. Hlutverk Jafnréttisstofu er að annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála.

Jafnréttisstofa heldur skrá yfir fyrirtæki og stofnanir sem lokið hafa jafnlaunavottun og er skráin birt á vefsíðu stofnunarinnar, jafnretti.is.

Helstu áskoranir

Áskoranir á sviði jafnréttismála eru margþættar og tengjast m.a. viðvarandi launamun kvenna og karla, kynskiptum vinnumarkaði, ójafnri valdastöðu kynjanna, kynbundnu og kyn­ferðislegu ofbeldi og áreitni og réttindum hinsegin fólks.

Tækifæri til umbóta

Í vinnumarkaðsmálum verður unnið gegn kynbundnum launamun og farið sérstaklega í aðgerðir til að draga úr launamun hjá hinu opinbera.

Innleiðing jafnlaunavottunar samkvæmt lögum fer fram í áföngum en með vottuninni er leitast við að draga úr kynbundnum launamun og stuðla að launajafnrétti kynjanna. Opinberir aðilar og stærri fyrirtæki með 250 starfsmenn eða fleiri eiga nú þegar að hafa innleitt jafnlaunavottun, auk annarra smærri aðila. Aðgerða­hópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar hefur skilað af sér skýrslu með tillögum að að­gerðum til að útrýma launa­mun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu van­mati á hefðbundnum kvennastörfum.

Í málefnum hinsegin fólks er unnið eftir samþykktri aðgerðaáætlun sem lýsir tilteknum verk­efnum og/eða aðgerðum. Aðgerðum í áætluninni er fylgt eftir með sérstöku mælaborði.

Forvarnaáætlun meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025, er fylgt eftir með sérstöku mælaborði.

Þingsályktunartillaga um nýja framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum sem tekur til áranna 2024–2027 verður lögð fram á Alþingi 2024.

Úthlutað verður úr Jafnréttissjóði annað hvert ár frá árinu 2023. Forsætis­ráðuneytið fer með tvo minni sjóði, annars vegar fram­kvæmdasjóð jafnréttismála sem veitir árlega styrki, til smærri verkefna ráðuneyta sem fela í sér samstarf milli ráðuneyta og/eða stofnana og hins vegar sjóð sem úthlutar árlega til verkefna sem byggjast á aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025 en aðgerðaáætlun í þeim málaflokki var samþykkt á Alþingi 2022. Jafnframt úthlutar forsætisráðherra styrkjum einu sinni á ári með heimild í 42. gr. laga um opinber fjármál og eru styrkir veittir af fenginni tillögu starfshóps. Með nýrri framkvæmda­áætlun í kynjajanfnréttismálum og framkvæmdasjóði sem starfræktur verður á grunni áætlunar­innar eru tækifæri til að leggja áherslu á tiltekna þætti m.v.iðað við áherlslur hvers árs. Umbætur í málaflokknum felast á tímabilinu m.a. í því að fylgja betur eftir markmiðum og aðgerðum í einstaka framkvæmdaáætlunum með sérstökum mælaborðum sem eru í stöðugri þróun og rýni til að betrumbæta framsetningu upplýsinga um framfylgd stefnumótunarskjala og áætlauna ráðu­neytisins. Forsætisráðuneytið vinnur að því að koma á laggirnar sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið og hefur birt grænbók um mann­réttindi til undirbúnings stefnumótun. ­­

Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni er bæði orsök og afleiðing kynjamisréttis og stjórnvöld leita allra leiða til að sporna við slíku ofbeldi. Samningur Evrópuráðsins um for­varnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningurinn) var full­giltur þann 26. apríl 2018 og tók samningurinn gildi í ágúst það sama ár. Stjórnvöld vinna nú að innleiðingu fyrstu tilmæla sérfræðinganefndar samningsins.

Stöðuskýrsla hefur verið birt um framfylgd þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

Áhættuþættir

Í málaflokknum jafnrétti eru margir þættir sem hafa áhrif á framvindu og stöðu jafnréttis, hvort sem er á Íslandi eða í heiminum öllum. Ýmsir samfélagslegir þættir eins og vaxandi skautun og hatursfull orðræða geta haft áhrif á jafnrétti og mannréttindi, en nú eru báðir mála­flokkar vistaðir í forsætisráðuneytinu enda um mikla samlegð að ræða. Mikilvægt er að hafa kynja­jafnrétti, mannréttindi og réttindi hinsegin fólks í forgrunni við ákvarðanatöku á næstu árum enda ýmsar áskoranir og hindranir sem blasa við.

Markmið og mælikvarðar

 

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða

2023

Viðmið 2025

Viðmið

2029

Launajafnrétti verði náð – kynbundnum launamun verði útrýmt.

5

Fjöldi opinberra stofnana, sjóða og fyrirtækja sem eru að hálfu eða í meirihlutaeigu ríkisins sem fá vottun.

118

(sveitarfélög) 46

126

55

126

55

8

Fjöldi fyrirtækja á markaði sem fá vottun.

459

1002

1002

5, 8

Minnka kynbundinn (leiðréttan) launamun sem mældur er í launa­rannsóknum Hagstofu Íslands.

4,1%1

3%

2%

Sporna við kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.

5

Hlutfall þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi.*

6,1%2

Lækki

Lækki

5

Hlutfall þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðis­broti.*

1,9%3

Lækki

Lækki

16

Hlutfall brotaþola ofbeldis í nánum samböndum sem tilkynna það til lögreglu.*

20,51%4

25%

35%

16

Hlutfall brotaþola sem tilkynna kynferðisbrot til lögreglu.*

10,3%5

13,5%

20%

Réttindi hinsegin fólks tryggð.

16

Lagaleg staða og réttindi hinsegin fólks á lista the European Region of the International Lesbian, Gay, Bisexual, Trans and Intersex Association (ILGA-Europe).

5. sæti á lista ILGA- Europe

Eitt af efstu fjórum sætunum á ILGA-Europe

Eitt af efstu þremur

sætunum á ILGA-Europe

1 Talan 4,1% er byggð á launakönnun Hagstofunnar 2021. Aðrar tölur eru áætlun og stefnt er að launakönnun á árinu 2024.

2–3 Skýrsla ríkislögreglustjóra: Reynsla landsmanna af afbrotum og viðhorf til lögreglu 2022 (pdf) útgefin í desember 2022. Sjá spurningu undir hlutanum Ofbeldis- og kynferðisbrot.

4–5 Skýrsla ríkislögreglustjóra: Reynsla landsmanna af afbrotum og viðhorf til lögreglu 2023, útgefin í desember 2023. Sjá spurningu undir hlutanum Tilkynningar til lögreglu. 

* Í könnun er spurt um reynslu árið á undan þannig að staðan 2023 er í reynd staðan 2022.

 

32.3 Stjórnsýsla heilbrigðismála

Verkefni

Undir málaflokkinn heyra m.a. aðalskrifstofa heilbrigðisráðuneytisins, vísindasiðanefnd og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). SÍ sjá um framkvæmd annarra málaflokka er falla undir mál­efna­svið um sjúkrahúsþjónustu (23), heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa (24), hjúkrunar- og endurhæfingarrými (25), lyf og lækningatæki (26). Þess hefur verið gætt að tilgreina stofnun­ina við umfjöllun um viðkomandi málaflokka og verður því umfjöllun hér ein­skorðuð við heil­­­­brigðisráðuneytið. Verkefni ráðuneytisins eru nánar tilgreind í forsetaúrskurði nr. 6/2022.

Undir málaflokkinn heyra einnig stafræn málefni. Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna hjá em­bætti landlæknis var falið það hlutverk að bera ábyrgð á þróun og innleiðingu upplýsinga­tækni í heilbrigðisþjónustu á öruggan, hagkvæman og skilvirkan hátt. Það felur m.a. í sér að sjá um og viðhalda rafrænni sjúkraskrá, aðgangi almennings að eigin heilsufars­upp­lýsingum í Heilsuveru og að reka íslenska heilbrigðisnetið Heklu. Endurskoðun á stafrænni stefnu ráðu­neytisins stendur yfir og unnið er að stefnumótun í málaflokknum til framtíðar.

Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er miðað við að Sjúkratryggingar Íslands annist alla samn­inga­gerð um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins, hvort sem um er að ræða þjón­­ustu opinberra aðila eða einkaaðila. Markmið laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, er að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og að sú þjónusta sé kostnaðar­greind. Samkvæmt lögunum er það hlutverk ráðherra að ákveða hvaða samninga skuli gera um kaup á heilbrigðisþjónustu en Sjúkratryggingar Íslands annast gerð slíkra samninga.

Helstu áskoranir

Helstu áskoranir við stjórnsýslu heilbrigðismála eru fólgnar í því að samþætta og sam­ræma alla stefnumótun og áætlanagerð. Efla þarf samþættingu stefnumótunar, tryggja skil­virka og gagnsæja stjórnsýslu og byggja upp stafrænt umhverfi til að auðvelda aðgengi allra að heil­brigðisþjónustu sem og að efla ákvarðanatöku innan heilbrigðiskerfisins fyrir notendur sem og veitendur. Sem dæmi um þær áskoranir sem ráðuneytið stendur frammi fyrir í stjórn­sýslu heilbrigðismála má nefna framtíðarskipulag miðlægra rafrænna heilbrigðislausna.

Auka þarf sérstaklega stuðning við vísindarannsóknir á heilbrigðisvísindasviði. Of fá verk­efni á sviði heilbrigðisvísinda fá úthlutun innan núverandi sjóðakerfa. Vísindarannsóknir eru mikilvægar til þess að tryggja gæðaheilbrigðisþjónustu og eru stór hluti af menntun heil­brigðis­­starfsmanna. Góð aðstaða og umhverfi til vísindarannsókna er einnig mikilvægur þáttur í því að fá til starfa hæft heilbrigðisstarfsfólk. Í stjórnarsáttmála er lögð áhersla á að styrkja Land­­spítala og því er mikilvægt að styrkja vísindastarf í heilbrigðisvísindum sem mun efla Land­­spítala sem háskólasjúkrahús. Í heil­brigðis­stefnu er lögð áhersla á að heilbrigðis­vísinda­sjóður verði stofnaður og veiti styrki til vísindarannsókna á sviði heilbrigðisvísinda. Sam­þætt­ing kynja- og jafnréttissjónarmiða í ákvarðanatöku ráðuneytisins er einnig verkefni sem stöð­ugt er unnið að. Starfsemi ráðuneytisins hefur fjölmarga snertifleti við jafnréttis­sjónarmið og það er áskorun að koma til móts við þau atriði í jafn umfangsmikilli vinnu. Hvað varðar sam­þættingu kynja- og jafnréttis­sjónar­miða inn í verk­efni og vinnu ráðuneytisins í heild er tekið mið af þeim sjónarmiðum við mat á jafnréttis­áhrifum lagasetningar, líkt og venjan er við gerð lagafrumvarpa. Unnt væri að nýta þær leið­bein­ingar og þau sjónarmið sem þar eru lögð til grundvallar við töku annarra ákvarð­ana hjá ráðu­neytinu, s.s. setningu reglugerða og annarra stefnumarkandi ákvarðana. Myndi það verk­lag styðja við að kynja- og jafnréttissjónarmið væru höfð til hliðsjónar við töku veiga­mikilla ákvarðana í ráðuneytinu.

Tækifæri til umbóta

Í stjórnarsáttmála er lögð áhersla á tækifærin sem felast í tæknibreytingum til aukinnar vel­­sældar þjóðarinnar. Ný tækni og stafrænar lausnir verði nýtt í auknum mæli til að bæta þjónustu, gæði og hagkvæmni. Í gildi er stafræn stefna fyrir heilbrigðismál sem unnin er með hlið­­sjón af heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og hefur tengingu við fimm ára aðgerðaáætlun ráð­herra þar sem lagður er grunnur að framtíðaráætlunum heilbrigðisráðuneytisins við þróun og notkun á stafrænni tækni til að bæta þjónustu og efla upplýsingar til að efla heilbrigði þjóðar­innar.

Í lok árs 2022 skipaði heilbrigðisráðherra stýrihóp um stafrænar lausnir og heilbrigðis­tækni­lausnir við veitingu heilbrigðisþjónustu. Hópnum er ætlað að vera samráðsvettvangur og ráðuneytinu til ráðgjafar við mótun og stefnu framtíðarsýnar í málaflokknum. Meðal stakra verk­efna sem hópurinn á að fjalla um er framtíð Heilsuveru og hvernig eigi að koma upp mið­­­­­­­lægu ópersónugreinanlegu gagnasafni til ákvarðanatöku. Þá á hópurinn að styðja við stefnu ráðuneytisins í fjárfestingu tækni og hugbúnaðar.

Stýrihópurinn hefur lagt til að tryggt verði að ákveðnar heilbrigðis­upplýsingar verði gerðar aðgengilegar miðlægt og að umsjón þeirra verði á ábyrgð eins opinbers aðila, með gagna­grunnum sem verði á einum stað verði því komið við. Meðal þeirra upplýsinga sem stýri­hóp­urinn leggur til að verði gerðar miðlægar eru bólusetningarskrá, skimunarskrá, lyfja­gagna­grunnur og niðurstöður blóðrannsókna og myndgreininga.

Á vettvangi stýrihópsins hafa verið stofnaðir tveir undirhópar, annars vegar hópur sem falið var að móta tillögur um staðla í hugbúnaði og gagnasöfnum í heilbrigðisþjónustu og hins vegar hópur um rafræna skráningu í heilbrigðisþjónustu.

Áhættuþættir

Mikilvægt er að styrkja SÍ sem kaupanda og kostnaðargreinanda heilbrigðisþjónustu til að stuðla að hagkvæmum og skilvirkum samningum um heilbrigðisþjónustu innan ásættan­legra tímamarka og hefur stofnunin fengið til þess umtalsverða styrkingu undanfarin ár. Samninga­­leysi um tiltekna heilbrigðisþjónustu fer þvert gegn markmiðum laga um sjúkra­tryggingar og mikilvægt að koma í veg fyrir að það ástand skapist. Ráðuneytið er einnig meðvitað um að málsmeðferðartími embættis landlæknis í málum þar sem kvartað er undan meintum mis­tökum eða vanrækslu heilbrigðisstarfsmanna er langur. Þann 1. sept­ember nk. taka gildi breyt­ingar á 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu þar sem fjallað er um heimild til að bera fram kvörtun til embættis landlæknis. Með breytingunni mun landlæknir ákveða hvort kvörtun sem berst gefi nægar ástæður til rannsóknar og hvort líklegt sé að niður­stöður rann­sóknar geti leitt til aukinna gæða og aukins öryggis heilbrigðisþjónustunnar. Þá er felld brott heimild til að leggja fram kvörtun vegna meintrar ótilhlýðilegrar framkomu heil­brigðis­starfsmanns. Ljóst er að breytingarnar munu hafa töluverð áhrif á fjölda þeirra mála sem em­bættið rannsakar á grund­velli 12. gr. laganna. Hefur ráðuneytið einnig veitt embætti land­læknis tímabundið fjár­fram­lag til að ráða bót á málsmeðferðartíma í kvörtunarmálum.

Markmið og mælikvarðar

 

Markmið

 

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Skilvirk stjórnsýsla heilbrigðismála.

 

3

Meðalafgreiðslutími

(í dögum) kærumála

að lokinni gagnaöflun.

70

90

90

 

3

Fjöldi mögulegra myndstrauma.

2

200

200

Efling vísindarannsókna í heilbrigðisþjónustu.

 

3

Stofnun heilbrigðisvísindasjóðs.

0

Sjóður stofnaður

 

Markmið 2 sem var í fyrri fjármálaáætlun, jafnrétti í bólusetningum kynja, er tekið út þar sem því hefur verið náð en nú er boðið upp á HPV- bólusetningu við 12 ára aldur óháð kyni.

 

32.4 Stjórnsýsla félagsmála

Verkefni

Undir málaflokkinn fellur rekstur aðalskrifstofu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, úrskurðarnefnd velferðarmála og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sem tók til starfa 1. janúar 2022 skv. lögum nr. 88/2021. Undir málaflokkinn fellur einnig rekstur Trygginga­stofn­unar ríkisins. Umfjöllun í fjármálaáætlun einskorðast við verkefni aðalskrifstofu ráðu­neyt­isins.

Helstu áskoranir

Með forsetaúrskurði nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnar­ráði Íslands, var gerð talsverð breyting á verkefnum félagsmálaráðuneytisins, auk þess sem nafni ráðuneytisins var breytt til að endurspegla áherslur nýrrar ríkisstjórnar. Heitir það nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.

Líkt og fram kom í fjármálaáætlun 2024-2028 hefur verið áskorun að byggja upp ráðuneyti með breyttar áherslur og tryggja áfram sérfræðiþekkingu starfsfólks sem og fjölbreyttan mannauð sem endurspeglar kynja- og jafnréttissjónarmið í víðum skilningi. Í ráðuneytinu eru jafnframt stórir og síkvikir mála­flokkar sem sumir hafa vaxið hratt á skömmum tíma, s.s. er varðar þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Mörg verkefni í stjórnarsáttmála heyra enn fremur undir málefnasvið ráðuneytisins. Áskorun er fólgin í því að tryggja að áherslur sem ganga þvert á málaflokka, t.a.m. er varða velsældaráherslur og kynja- og jafnréttis­sjónar­mið, séu samþættar í verkefni ráðuneytisins.

Tækifæri til umbóta

Viðamikil stefnumótun á sér stað í mörgum málaflokkum innan ráðu­neytisins, m.a. er varðar endurskoðun örorkulífeyriskerfisins, stefnu­mótun í málefnum innflytjenda og flótta­fólks og endurskoðun framhaldsfræðslu. Þá hefur sem dæmi litið dagsins ljós landsáætlun í mál­efnum fatlaðs fólks og unnið er markvisst að framkvæmd verkefnisins Gott að eldast en það er aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk. Horft er til ákvæða stefnumótunar í lögum um opinber fjármál við úrlausn verkefnanna, auk þess sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að áherslur sem ganga þvert á málaflokka skili sér inn í þau.

Framangreind verkefni, auk þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á starfsemi ráðu­neytisins, fela í sér áskoranir en einnig fjölmörg tækifæri til að móta áfram skilvirka og faglega stjórnsýslu fyrir öll. Auk hefðbundinna skrifstofa í ráðuneytinu eru starfrækt fjögur fagteymi og liggja þau þvert á skrifstofurnar. Í ráðuneytinu er enn fremur stöðug áhersla á að bæta verk­­lag og þróa frekar innri starfsemi í takt við ákvæði laga um opinber fjármál þar sem áherslan er á stefnumótun og mótun árangurs­mælikvarða.

Áhættuþættir

Í ráðuneytinu eru verkefni sem krefjast samvinnu þvert á ráðuneyti Stjórnarráðsins, s.s. er varðar þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, endurskoðun örorkulífeyris­kerfsins, stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks, og aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk. Stór og síkvik verkefni sem krefjast umfangsmikillar samvinnu þvert á stjórnsýsluna fela ótvírætt í sér áskoranir, m.a. hvað varðar mannafla. Ófyrirsjáanleiki er óhjákvæmilegur innan málaflokksins og málefni mis­umfangs­mikil á hverjum tíma. Má þar nefna málefni vinnumark­aðar. Slíkur ófyrirsjáan­leiki felur bæði í sér áskoranir varðandi mannauð og þekkingu.

Markmið og mælikvarðar

 

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið
2025

Viðmið
2029

 

 

Skilvirkari stjórnsýsla félagsmála.

 

Heildaránægja með þjónustu stofnana FRN sem taka þátt í þjónustukönnun ríkisstofnana.

3,9

4,2

4,2

 

Heildaránægja með stjórnendafræðslu ráðuneytisins.

-

4,0

4,0

 

Heildareinkunn FRN skv. könnun um Stofnun ársins.

3,98

4,2

4,2

Nýr mælikvarði bættist við fjármálaáætlun 2025-2029 og er hann tekinn úr könnuninni Stofnun ársins. Þar er starfsfólk ráðuneytisins spurt um stjórnun í ráðuneytinu og ýmsa þætti sem tengjast skilvirkari stjórnsýslu félagsmála. Þá var mælikvarða varðandi stjórnendafræðslu breytt milli fjár­mála­áætlana. Í stað þess að mæla fjölda fræðsludaga er nú litið til ánægju þátttakenda með fræðsl­una sjálfa og mun sú mæling verða gerð árlega. Loks voru viðmið mælikvarða um heildar­ánægju með þjónustu stofnana FRN hækkuð í ljósi þess hve góður árangur náðist milli áranna 2022 og 2023 en heildaránægja jókst úr 3,4 í 3,9.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum